Hvað er leitarvélabestun og hvað er SEO? | Greinar, markaðsmolar og pistlar um málefni internetsins

Hvað er leitarvélabestun og hvað er SEO?

Það sem þú vildir vita um leitarvélabestun

Leitarvélabestun (SEO) eru verkferlar sem miða að því að bæta og viðhalda sýnileika vefsíðna fyrir vefrænar (organic) niðurstöður hjá leitarvélum (SERP).

Innri og ytri þættir leitarvélabestunar

Verkferlum leitarvélabestunnar má skipta í tvo megin flokka: Innansíðu-og utansíðubestun.

  • Innansíðubestun snýr meðal annars að gæði vefkóða eins og HTML, vel hannaðri uppbyggingu vefsíðunnar eins og skalanlega og hraða við niðurhal, góðu inntaki og efni vefsíðunnar sem svarar þörfum notenda ásamt öruggri vefhýsingu.
  • Utansíðubestun snýr meðal annars að tengingum við aðrar síður. Til dæmis með baktenglum frá öðrum vefsíðum, þátttöku í umræðum á blogg-eða samfélagssíðum. Einnig er branding og áunnið traust vefnotenda mikilvægur þáttur í leitarvélabestun.

Hvernig virka leitarvélar?

Leitarvélar eins og Google, Yahoo og Bing skanna Internetið og skrá og flokka vefsíður eftir mjög flóknum reiknireglum sem kallast algóriþmar. Þetta eru í raun forrit sem skrá vefsíður með flóknum aðferðum, flokka þær og setur þær í ákveðin hólf. Þessu hefur verið líkt við bókasafn sem skráir og flokkar bækur eftir ákveðnu kerfi. Ekki eru allar vefsíður skráðar í index leitarvélanna. Ef vefsíða stenst ekki prófið þá er hún úti í kuldanum eins og manni dettur í hug að verstu sorprit fái ekki skráningu í almenningsbókasafn. Vefsíður sem standast próf leitarvélanna eru ekki alltaf skráðar strax eða um leið og þær eru settar í loftið. Það getur tekið nokkrar vikur þar til vefsíður eru skráðar og fá sitt hólf.

Skráningarkerfi leitarvélanna

Skráningarkerfi eða reiknirit leitarvélanna eru vel geymd leyndarmál og efni í sífelldar umræður og vangaveltur á meðal sérfræðinga um leitarvélabestun. Þegar einhver setur inn leitarorð í leitarvélina fer reikniritið af stað og „mátar“ vefsíður við leitarorðið eða leitarsetninguna og notar til þess meira en tvö hundruð skilyrði í reikniritinu. Þessi skilyrði hafa misjafnlega mikið vægi í heildar niðurstöðum en almenna reglan er sú að þær vefsíður sem standast flest skilyrði lenda alla jafna í efstu sætum leitarvélana.

30 milljón milljónir milljóna vefsíðna

Samkvæmt Google þá eru yfir 30 trilljón (milljón milljónir milljóna) vefsíðna á skrá hjá þeim sem er ótrúlegt magn af vefsíðum.(Í þessum tölum eru meðtaldar allar undirsíður allra vefsíðna). Sérstaklega er þetta mikið í ljósi þess að það tekur ekki nema sekundur eða jafnvel sekúndubrot að koma með leitarmiðurstöður. Kannanir hafa sýnt að fjórðungur allra leita hjá leitarvélunum bera ekki árangur. Í því ljósi reyna leitarvélarnar stöðugt að bæta algóriþmann og gera breytingar á forritinu. Þróunin hefur verið sú að forritið á bakvið leitarvélina „lærir“ nethegðun notandans smám saman, skráir um hann upplýsingar og notar þær síðan til þess að gera leitina persónulegri. Fyrirtæki eins og google á og rekur mörg af vinsælustu vefsíðum Internetsins. Allar þessar síður safna upplýsingum um einstaklinga sem geymdar eru í miðlægum gagnagrunnum. Mörgum finnst þessi þróun vond og segja að hún sé hreinar og klárar persónunjósnir.

Baráttan við spamsíður

Eitt af því sem plagar notendur Internetsins einna mest er það sem kallast SPAM síður. Það mætti kalla þær svindlsíður. Slíkar síður nota sérstaka tækni og aðferðir til þess að komast sem hæst í leitarvélaniðurstöðum. Leitarvélarnar eru sífellt að þróa aðferðir til að sía þessar vondu vefsíður frá hinum góðu. Stundum lenda góðu vefsíðurnar í þessum síum. Þetta á sérstaklega við þegar leitarvélabestun er tekin út að mörkum þess að vera eðlileg aðgerð. Besta dæmi um þetta er þegar keyptir eru baktenglar hjá vafasömum tenglahlöðum (linkbarns) og eins þegar tenglabítti eiga sér stað við vafasamar vefsíður. Önnur dæmi um þetta er þegar vefsmiðir einblína um of á lykilorð og yfirsetja texta með þeim.

Snjallsíður fyrir snjalltæki

Snjallsímaeign almennings hefur margfaldast á nokkrum misserum og notkun þeirra til þess að leita á netinu er sífellt að aukast. Leitarvélarnar hafa því þurft að uppfæra leitarforritin sín með tilliti til þess. Google tilkynnti vorið 2015 um breytingar sem fólust í því að vefsíður sem eru skalanlegar eða snjallsíður fá aukið vægi þegar leitað er með snjallsímum eða spjaldtölvum. Þetta getur þýtt að þær vefsíður sem ekki eru snjallsíður og venjulega koma efstar í leitarniðurstöðum færast aftar.


Infógrafík fyrir leitarvélabestun

Við höfum föndrað lítilega og bjuggum til þetta einfalda infógrafík til þess að skýra út helstu atriði leitarvélabestunar. Þér er velkomið að deila þessu.

leitarvélabestun

deildu