#The Grid, eða grindin; byltingarkennd aðferð við vefhönnun | Greinar, markaðsmolar og pistlar um málefni internetsins

#The Grid, eða grindin; byltingarkennd aðferð við vefhönnun

The grid

Grindin; bóla eða bylting? Hvernig litist þér á að setja allt vefefni eins og myndir, video og texta inn í forrit og fá síðan þremur sekúndum síðar út fullvirka og flotta vefsíðu? Sannkallaða snjallsíðu. Þú hefur sjálfsagt fengið auglýsingar á facebook vegginn þinn frá fyrirtækinu thegrid.io sem kynnir nýstárlega aðferð við vefsíðugerð. Ef loforðin þeirra reynast ekki orðin tóm þá er ljóst að hér er um mestu byltingu í vefsíðugerð síðan CSS og java script var fundið upp. Þetta er það nýjasta sem á sér stað í vefhönnun og kallast The Grid eða bara grindin. Hér er um að ræða (samkvæmt aðstandendum grindarinnar) vefsíður sem smíða sig nánast sjálfar með gerfigreindar tækni (Artificial Intelligence). Hér eru ekki einungis á ferðinni hefðbundnar snjallsíður sem aðlaga sig að skjástærðum samkvæmt fyrirfram gefnum kóðum sem vefhönnuðurinn smíðar heldur eru hér á ferðinni vefsíður sem setja sig saman sjálfar eftir því efni (e.content) sem nota skal á síðunum. Semsagt þú mokar inn efninu og útkoman er flott fullkláruð vefsíða.

Og tekur ekki nema nokkrar sekúndur samkvæmt því sem aðstandendur grindarinnar segja á vefnum sínum. Tek það fram að ég hef ekki notað þessa tækni sjálfur enda mun hún ekki líta dagsins ljós fyrr en í júní 2015.

Vertu stofnmeðlimur númer 43.012

Á vefsíðunni thegrid.io geturðu gerst stofnmeðlimur fyrir $8 á mánuði (og greiða ár fyrirfram). Þegar þetta er ritað er boðið upp á að gerast stofnmeðlimur númer 43.012. Innifalið í því gjaldi er sjö mismunandi vefsíður með vefhýsingu, tækniaðstoð við lénhýsingar og fleira. Hér er ekki verið að selja hlutabréf í apparatinu heldur einungis boðið upp á að gerast stofnmeðlimur áður en áskriftin hækkar í $25. Á minni ævi hef ég orðið vitni að ótrúlegum framförum í sjálfvirkni framleiðslutækja. Starfaði við að setja upp vélar sem keyrðu á CNC tækni (skammstöfunin stendur fyrir Computerized Numerical Control). Allstaðar í framleiðslu á vörum og jafnvel í kúabúskap hefur sjálfvirkni verið innleidd en fá (ef nokkur) dæmi eru um að sjálfvirkni hafi verið innleidd í hönnun (sem margir telja til listgreina) þar sem hugvitið og sköpunarkraftur ræður för.

Er kóðun grindarinnar samkvæmt stöðlum eða mun grindin setja staðla?

Þegar vefsíðan er skoðuð og rýnt er í myndbandið sem þar er að finna þá fær maður fyrst á tilfinninguna að hér sé á ferðinni nokkuð snjöll lausn. Allt lítur þetta mjög vel út og þær vefsíður sem sjást á myndbandinu og á vefsíðunni myndu vafalaust þykja flottar og boðlegar mörgum fyrirtækjum eða stofnunum. Stóra spurningin er sú hvort kóðun grindarinnar, eftir að henni hefur verið spýtt út úr forritinu, verði samkvæmt alþjóðastöðlum internetsins og virki þar af leiðandi í helstu vöfrum. Einnig er stór spurning hvernig leitarvélar höndla vefsíður grindarinnar. Verður kóðinn í samræmi við hina leyndardómsfullu algorythma þeirra? Eða er mögulegt að grindin sé svo snjöll að staðlar internetsins verði á endanum aðlagaðir henni?

frumkvöðlar

Topp menn að störfum

Aðstandendur þessarar byltingar í vefhönnun eru engir aukvisar og eiga farsæla starfsferla að baki: Dan Tocchini sem jafnframt er stofnandi fyrirtækisins og stjórnarformaður er hönnuðurinn á bak við GSS (Grid Style Sheets) sem er opið kóðasafn og nýtir Java Script og HTML5 til að leysa viðmótsvandamál (e.User Interface) á netinu sem ekki eru auðleyst með CSS (e.Cascading Style Sheet). Henri Bergius er höfundur Create.js sem er vefritill (e.Editor) byggður á Java Script og er einnig opið öllum. Með create.js er hægt að bæta við og lagfæra texta án þess að þurfa að fara í bakenda síðunnar, inní vefumsjónakerfið sjálft. Leigh Taylor er hönnuðurinn á bakvið vefsíðuna Medium sem þykir af mörgum hafa eitt flottasta bloggkerfið á netinu.

Hægari en 85% allra prófaðra vefsíðna

Þegar vefsíðunni the grid (sem væntanlega er smíðuð með þessari tækni) er rennt í gegnum hraðamæli hjá pingdom (http://tools.pingdom.com/ ) kemur í jós að vefsíðan er lengi að hlaðast eða 9.2 sekúndur og stærð síðunnar er 31.9 mb. Slíkar niðurstöður þættu ekki góðar hjá virtum vefhönnuðum! Það er einnig eftirtektavert að forsíða thegrid.io er endalaust löng. Maður ætlar aldrei að komast niður á grindarbotninn. Það er greinilegt að myndir og video eiga stóran sess í vefönnun grindarinnar sem kallast á við kröfur neytenda sem vilja í síauknum mæli fremur upplifa myndir og vídeó í stað texta.

pingdom

Bylting eða bóla?

Hvort sem hér er um að ræða algera byltingu í vefhönnun sem umbreytir vefsmíðagerð eða einhverja bólu sem hjaðnar og finnur sína sillu á markaðnum þá er það ljóst að hér er á ferðinni áhugavert innlegg í hraða þróun internetsins. Það á enn eftir að koma í ljós hvort grindin sé takmörkunum sett þegar kemur að sérhönnun vefsíðna. Til eru á markaðnum vefhönnunarforrit eins og wix sem eru einföld í notkun og henta fjölda einstaklinga og fyrirtækja en slík forrit eru háð ákveðnum takmörkunum.

Markvís mun fylgjast með grindinni og skrifa pistil þegar hún er komin í loftið. Sjáum hvað setur.